22.1.2010 | 05:14
Hrunið
Ýmislegt hefur verið skrifað um bankahrunið frá því að allt hrundi fyrir rúmu ári.
Mest hefur verið skrifað um hrunið sjálft og ástæður hrunsins og hverju eða hverjum sé um að kenna. Flestum ber saman um að nokkrir samverkandi þættir hafi valdið hruninu og stærstu atriðin séu Spilling og Græðgi Banka og Útrásarmanna sem ásamt mjög erfiðum ástæðum í hinum alþjóðlega lánsfársmarkaði hafi skellt bönkunum (og nánast öllu efnahagslífi Íslands um leið).
Hverjum er mest um að kenna eru skiptar skoðanir og koma iðulega upp nöfn eins og Davíð Oddson (sumir segja að barátta hans til að knésetja Baugsveldið hafi náð hámarki með yfirtöku Glitnis og hruni Bankakerfisins), Jón Ásgeir Jóhannesson (og Baugsfjölskyldan), Hannes Smárason (FL group og fl.), Sigurður Einarsson (Kaupþing), Sigurjón Árnason (IceSave tær snilld), Björgúlfsfeðgar (Landsbanki, Eimskip og fl.) og fleiri (Sennilega má sjá flest ef ekki öll nöfnin sem nefnd hafa verið á http://www.hvitbok.vg/) jafnvel virðist sem nú að sumir (aðallega þá stjórnarandstæðingar) vilji meina að VG beri mesta ábyrgð (hvernig sem hægt er að heimfæra það). En þó eru nánast allir sammála að um tiltölulegan lítill hóp manna sem fór fyrir Útrásinni og stjórnun bankanna sé mest um að kenna.
Hver svo sem á stærstu sök á hruninu að þá er nokkuð ljóst að um tiltölulega litin hóp manna er hægt að nánast eigna ástæður hrunsins hér á landi.
Nú vaknar upp sú spurning hvernig þjóðinni og einstaklingum hafi getað tekist á við vandan og hvernig málum sé háttað hjá okkur eftir þetta. Það kemur reglulega fram í fjölmiðlum að atvinnuleysi hefur aldrei verið meira (og sjálfsagt muna elstu menn ekki annað eins). Annað hvert fyrirtæki er í raun tæknilega gjaldþrota. Sennilega er búið er að koma bönkunum í skjól. Enn eru gjaldeyrishöft og menn segjast vera að reyna að bjarga heimilunum í landinu (en enn sem komið er, er ekki nóg að gert þar). Þetta er sjálfsagt hrun að þeirri stærðargráðu að ekkert er auðvelt í stöðunni og sennilegt að aldrei verði hægt að bjarga öllu og sennilega munu heimilunum blæða mest.
Það er sjálfsagt erfitt að forgangsraða í þessari stöðu. Ef öllum fjármunum verður varið til að bjarga heimilunum en fyrirtækjunum látið blæða út að þá verður sjálfsagt tjaldað til einnar nætur og við í verri málum á morgun. Ef öllum peningunum væri varið í að bjarga fyrirtækjunum að þá hrynja heimilin og hvar eiga þá fyrirtækin að fá sína viðskiptavini. Sjálfsagt mun öllum blæða en maður hefur það á tilfinningunni að heimilin munu blæða mest.
Hvernig reiðir þeim svo af sem flestir eru sammála um að séu "þeir seku" í hruninu?
Flestir ef ekki allir eru fluttir erlendis. Hvers vegna?? Hrundi fjárhagsleg staða þeirra svo mikið að þeir hafa ekki lengur efni á að búa á Íslandi?? Ef fjárhagsleg staða þeirra hefur hrunið að þá er hún svo slæm að flestir þeirra búa í húsnæði þar sem verðmiðin nær ekki einisinni 1 milljarði (1 þúsund milljónir) þó ekki allir, því sumir virðast náð að nurla saman hátt á annan milljarð í sitt hreysi. Oft er þetta svona á bilinu 400 til 600 miljóna króna húsnæði sem þeir búa í (ef miðað er við grein blaðamanns dv, sjá http://www.dv.is/brennidepill/2010/1/21/islenskir-audmenn-eins-og-kongar-i-london/). Það sjá allir að þeir líða auðvitað mikinn skort.
Nú rúmu ári eftir að allt hrundi eru nú fyrstu ákærur tengdar hruninu. Ef einhver hefur búist við að einhverjir fyrrnefndir aðilar séu á þeim lista að þá er það ekki. Þrátt fyrir alla umræðu og spekulasjónir hverjir séu hinir seku, mótmæli til að knýja fram breytingar, baráttu til að þeim seku verði refsað að þá eru þeir fyrstu sem ákærðir, eru mótmælendurnir sjálfir!!! Þeir sem hafa barist fyrir að einhverjir muni sæta ábyrgð!! Enn vitum við ekki hvort þetta verða einu aðilarnir sem ákærðir verða vegna bankahrunsins. Þó er sjálfsagt hægt að finna fleiri mótmælendur sem fóru yfir strikið og hægt væri að láta dúsa í fangelsi fyrir. Þetta eru aðal glæpamennirnir. Ég skal ekki dæma um það hvort mótmælendur fóru yfir strikið á einhverjum tímapunkti. Sjálfsagt gerðu þeir það einhverju sinni.
Hins vegar þurfti að koma rödd fólksins að (hvort sem menn finnist það hafa borið árangur eða ekki). Það er einkennilegt að þeir sem reyndu að koma einhverjum breytingum að séu fyrstu fórnarlömb réttvísinnar og enn furðulegra í ljósi þess að þeir sem öllum ber saman um að séu "sekir" lifa í lúxus í útlöndum í mörg hundruð milljóna króna húsunum sínum, keyrandi lúxusbílana sína og kannski sumir en með lúxus einkaþoturnar sínar. Ég held satt best að segja að almenningi í landinu sé verulega misboðið.
Hvað getum við almenningur gert?? Sennilega ekkert!! Við getum sjálfsagt bloggað og bloggað og bloggað okkur vitlaus, það eru ansi margir sem hafa skrifað eitthvað um þetta, en sjálfsagt gerist ekkert. Margir þeir hinna "seku" eru í hinum og þessum trúnaðarstörfum fyrir skilanefndir eða stjórnun fyrirtækja í eigu "nýju" bankanna. Alveg sama hversu margir skrifa um það að það virðist bara engu breyta. Sumir þeirra sem áttu stærstan þáttinn í hruninu eru að koma með "ný tækifæri" fyrir okkur (hvað svo sem þau tækifæri eiga að gefa okkur). Það virðist sem svo að þeir sem komu almenning á hausinn og íslandi á vonarvöl eigi nánast allir að fá sín tækifæri á meðan almenningur fær að dúsa í fangelsi fyrir að mótmæla þessu.
Maður spyr sig??? í hvernig þjóðfélagi búum við?? Erum við í Kína? þar sem almenningur má ekki mótmæla nokkru. Nei örugglega ekki því jafnvel í Kína er spilling ekki látin líðast. Hvers konar þjóðfélag búum við í?? þar sem nokkrir einstaklingar fá að fara hamförum um efnahag landsins og fá fyrir vikið annað tækifæri eða í versta falli ritstjórastöður en almenningur sem vogar sér að mótmæla þessu er umsvifalaust leiddur fyrir dómara og á von á ársfangelsi fyrir vikið!!
Ég geri mér grein fyrir því að þeir sem stjórna landinu hafa sennilega haft ærin starfa við að reyna að bjarga landinu frá hreinu skipsbroti og hafa kannski ekki getað gefið sér í að sjá um þessi "minni" mál, hins vegar held ég að allur almenningur sé nánast búin að fá nóg. Þeir sem stjórna landinu að ef þeir geta ekki sjálfir tekið aðeins í taumana að þá eiga þeir að setja einhverja þá aðila sem þeir treysta í að reyna að taka til þar (einhverja hlutlausa aðila sem eru ekki á spena eignamannanna, sem er kannski ómögulegt að finna).
Það byggir held ég engan vegin traust og samheldni í landinu að á meðan "seku" mennirnir séu frjálsir með fullar hendur fjár, lifandi í hinum mesta lúxus að þá séu mótmælendur fangelsaðir í stórum stíl. Ef menn á annað borð þurfa að ákæra að þá hefði verið betra að sjá það gerast um svipað leiti og þegar hinir raunverulegu sökudólgar hrunsins fái ákærur.
meira var það ekki.
Kjarri thaiiceland
(Kjartan Adólfsson)
Kveðja thaiiceland
www.thaiiceland.com thaiiceland heimasíðan. Endilega kíkja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.